Nefnd skipuð um heildstæða athugun á starfsemi vöggustofu frá 1974- 1979

Stjórnsýsla

Mynd af forsíðu skýrslu um rannsókn á vöggustofum

Borgarráð staðfesti í dag tillögu að skipan nefndar þriggja óháðra sérfræðinga sem munu gera heildstæða athugun á starfsemi vöggustofu Thorvaldsensfélagsins árin 1974- 1979. Nefndina skipa Trausti Fannar Valsson, lögfræðingur og dósent við Háskóla Íslands og verður hann formaður, Urður Njarðvík, prófessor í barnasálfræði og fyrrverandi deildarforseti sálfræðideildar Háskóla Íslands og Ellý Þorsteinsdóttir, félagsráðgjafi. Þær Urður og Ellý sátu einnig í nefnd sem rannsakaði starfsemi vöggustofa sem reknar voru í Reykjavík árin 1949 til 1973 og skilaði af sér niðurstöðum í október 2023.

Borgarráð samþykkti ellefta janúar síðastliðinn að gerð yrði heildstæð athugun á starfsemi vöggustofunnar að Hlíðarenda (upptökuheimili barna) árin 1974- 1979, þar á meðal með hliðsjón af breyttum verkefnum vöggustofunnar á því tímabili. Nefndin sem fer með verkefnið skal vera sjálfstæð og óháð í störfum sínum. Henni verður heimilt að ráða starfsmann og kalla eftir aðstoð og upplýsingum frá aðilum innan og utan stjórnkerfis Reykjavíkurborgar við einstaka þætti athugunarinnar. Nefndarfólk og starfsmaður nefndarinnar eru bundin þagnarskyldu um hvaðeina er varðar einkalíf fólks sem þau fá upplýsingar um við störf nefndarinnar en formanni hennar er heimilt að veita almennar upplýsingar um störf nefndarinnar og verklag á meðan hún starfar.

Nefndin leggur tíma- og verkáætlun um störf sín fyrir borgarráð innan mánaðar frá skipun hennar og miðað er við að nefndin skili lokaskýrslu sinni til borgarráðs eigi síðar en 15. desember á þessu ári.

Tillaga borgarstjóra.

Skýrsla nefndar um vöggustofur í Reykjavík.