• 28/08/2022

    Stjórn Félags íslenskra safna og safnmanna (FÍSOS) gerir alvarlegar athugasemdir við skipun nýs þjóðminjavarðar þann 26. ágúst síðastliðinn. Ráðningar sem þessar, með tilfærslu á milli embætta, eru ógagnsæjar og ófaglegar. Slík vinnubrögð grafa undan trausti á stjórnsýsluna og embættismannakerfið. 

    Þjóðminjasafn Íslands er höfuðsafn á sviði þjóðminjavörslu og ber sem slíkt höfuðábyrgð á að varðveita, rannsaka og miðla stórum hluta íslensks menningararfs. Safnið hefur verið leiðandi í faglegu starfi safna hér á landi í allri sinni starfsemi. Með því að skipa í stöðu þjóðminjavarðar án auglýsingar er gert lítið úr mikilvægi safnsins, faglegri starfsemi þess og starfsfólki. Skipun sem þessi grefur undan faglegu umhverfi safna og lýsir metnaðarleysi stjórnsýslunnar í garð Þjóðminjasafnsins og málaflokksins í heild.

    Stjórn FÍSOS leggur áherslu á að athugasemdir þessar beinast að engu leyti að nýskipuðum þjóðminjaverði, heldur að ógagnsæju og óréttlátu ferli skipunarinnar.

    Virðingarfyllst,
    Stjórn FÍSOS