Hoppa yfir valmynd
Forvarnir

Óveður

Veður hefur oft áhrif á plön fólks hér á landi. Flestir þekkja vel að vera sífellt að skoða veðurspá og færð og þurfa svo að breyta plönum þar sem ekki er öruggt að vera á ferðinni.  Veðurstofan gefur út viðvaranir eftir litum út frá því hversu mikil áhrif veðrið getur haft. Mikilvægt er að taka mark á þeim og gera allt til að koma í veg fyrir tjón og slys. 

Gul viðvörun
  • Getur valdið töfum, slysum eða tjóni ef aðgát er ekki höfð.
  • Veðrið getur haft staðbundin áhrif sér í lagi við fjöll og þekkta hviðustaði.
  • Setja þarf lausa muni utandyra í skjól eða festa niður.
  • Skoða færð og veður ef fara á milli staða.
  • Gæta að hurðum þegar þær eru opnaðar.
  • Hegða akstri m.t.t. aðstæðna og draga úr hraða í hviðum.
  • Kerrur og ferðavagnar geta fokið.
  • Lokanir geta orðið á vegum.
Appelsínugul viðvörun
  • Tjón og slys geta orðið ef aðgát er ekki höfð.
  • Getur þurft að breyta plönum.
  • Taka inn, binda eða koma lausum munum í skjól.
  • Skerðing getur orðið á þjónustu og innviðum á ákveðnum stöðum.
  • Gæti þurft að sækja yngstu börnin fyrr úr skólanum.
  • Gæta að hurðum þegar þær eru opnaðar.
  • Leggja bíl upp í vindinn.
  • Rafmagnstruflanir líklegar.
  • Víðtækar lokanir á vegum.
  • Æskilegt að bíða veður af sér ef þarf að fara á milli staða.
  • Ef vegir eru opnir og nauðsynlegt er að fara á milli staða verður að skoða færð og veður vel, vera rétt búin og sýna fyllstu aðgát.
Rauð viðvörun
  • Líkur eru á skemmdum á mannvirkjum.
  • Tré geta fokið og kyrrstæðir bílar færst úr stað.
  • Líkur á slysum eru miklar ef verið er úti. Ekki vera úti að óþörfu.
  • Verulegar líkur eru á miklum samfélagslegum áhrifum.
  • Allir verða að undirbúa sig fyrir veðrið.
  • Loka gluggum og passa vel uppá hurðir þegar þær eru opnaðar.
  • Leggja bíl upp í vindinn.
  • Allir verða að taka lausa muni inn, binda eða fergja.
  • Ekki vera á ferðinni á milli staða. Jafnvel ekki innanbæjar.
  • Viðbúið að samgöngur lokist.
  • Líkur á að þjónusta skerðist og að rafmagnstruflanir geti orðið víðtækar.
  • Líkleg lokun á vinnustöðum og skólum.
  • Hugsanlegt útgöngubann.